Það er búið að vera mikið líf og fjör á Flúðum um helgina þar sem Körfuboltabúðir Hrunamanna voru haldnar í fjórtánda skiptið.
Árni Þór Hilmarsson stofnaði körfuboltabúðirnar á sínum tíma ásamt Heiðrúnu Kristmundsdóttur og hefur nú Heiðrún tekið við skipulagningunni ásamt manni sínum, Ægi Þór Steinarssyni, landsliðsmanni í körfubolta.
Uppselt var í búðirnar í ár en tæplega 190 börn allstaðar að af landinu voru mætt í íþróttahúsið á Flúðum til að verða betri í íþróttinni, undir handleiðslu færustu þjálfara og leikmanna landsins.
Á föstudagskvöldið var svo sérstakur viðburður þar sem sjálfur Evrópubikarinn mætti á svæðið ásamt lukkudýri Eurobasket í ár, Marky Mark.

„Bikarinn er núna á Íslandi á ferð sinni um Evrópu þar sem hann heimsækir átta þjóðir af þeim 24 sem spila á mótinu í haust. Mótshaldarar fengu veður af fjölmennustu körfuboltabúðum landsins og óskuðu eftir að koma í heimsókn með bikarinn og kíkja á framtíðar landsliðsleikmenn Íslands æfa körfubolta á Flúðum,“ segir Heiðrún í samtali við sunnlenska.is
„Þetta er bikar sem ekki minni menn en Luka Doncic, Dirk Nowitzki, Tony Parker, Victor Wembanyama, Pau Gasol, Giannis Antetokounmpo og Jón Arnór Stefánsson hafa látið sig dreyma um að lyfta einn daginn, og einhverjir þeirra hafa náð því markmiði.“

Íslenska karlalandsliðið mun keppa á Evrópumótinu en Ægir Þór er fyrirliði liðsins og hann ásamt öðrum landsliðsmönnum og þjálfurum eru þjálfarar í Körfuboltabúðunum á Flúðum.
Og Heiðrún er ánægð með hvernig til tókst í ár. „Já, þetta var frábær helgi og búðirnar eru mikilvæg fjáröflun fyrir yngri flokka starf körfuboltadeildar Íþróttabandalags Uppsveita en deildin er aðeins um tveggja ára gömul.“
Hægt er að fylgjast með starfsemi körfuboltabúðanna á Facebook og Instagram.
