Eva María og Hergeir íþróttafólk Umf. Selfoss 2021

Hergeir Grímsson og Eva María Baldursdóttir, íþróttafólk ársins hjá Ungmennafélagi Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og handknattleiksmaðurinn Hergeir Grímsson voru í kvöld útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Ungmennafélags Selfoss árið 2021.

Eva María varð Íslandsmeistari kvenna í hástökki utanhúss síðastliðið sumar auk þess sem hún varð Íslandsmeistari í sínum aldursflokki í hástökki, bæði innan- og utanhúss. Hún sigraði einnig í hástökki á Reykjavík International Games og bætti sinn persónulega árangur innanhúss með því að stökkva yfir 1,78 m. Það er hæsta stökk sem íslensk kona stökk árið 2021, bæði innan- og utanhúss. Eva María er í stórmótahópi FRÍ og landsliði Íslands í frjálsum íþróttum.

Hergeir er fyrirliði Selfoss í Olísdeild karla sem verið hefur í toppbaráttu síðastliðið ár. Hergeir hefur sannað sig sem einn besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu á báðum endum vallarins og var einnig í lykilhlutverki í Evrópuleikjum Selfoss í haust. Hergeir var markahæsti leikmaður Selfoss á síðasta keppnistímabili ásamt því að vera valinn sóknarmaður ársins á lokahófi deildarinnar síðastliðið sumar.

Sex konur og átta karlar voru tilnefnd í kjörinu en sérstök valnefnd á vegum félagsins útnefnir íþróttafólk ársins. Verðlaunaafhendingin fór fram í Selinu á Selfossi að viðstöddu fámenni.

Fyrri greinÞrír uppaldir framlengja
Næsta greinNorðaustan stormur á nýársdag