Eva María og Hergeir íþróttafólk Árborgar 2020

Eva María og Hergeir, íþróttafólk Árborgar árið 2020. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og handknattleiksmaðurinn Hergeir Grímsson, bæði úr Ungmennafélagi Selfoss voru í kvöld útnefnd íþróttakona og -karl Árborgar 2020.

Níu íþróttakonur og ellefu íþróttakarlar voru tilnefnd í ár til kjörs íþróttakonu- og karls Árborgar 2020. Kjörið var tilkynnt á árlegri uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar sem að þessu sinni var send út á netinu frá hátíðarsalnum í Grænumörk á Selfossi.

Eva María hlaut 91 stig í kjörinu af 102 mögulegum. Hún er fremsti hástökkvari landsins í kvennaflokki og einn efnilegasti hástökkvarinn í heiminum í dag. Hún varð Íslandsmeistari innanhúss árið 2020 en missti af meistaramótinu utanhúss vegna meiðsla. Síðasta sumar setti hún Íslandsmet í flokki 16-17 ára þegar hún stökk yfir 1,81 m. Eva María er í 8. sæti á heimslistanum í sínum aldursflokki í hástökki og í landsliðshópi FRÍ en öllum alþjóðlegum mótum sem hún átti keppnisrétt á árið 2020 var aflýst vegna COVID-19.

Knattspyrnukonan Barbára Sól Gísladóttir, Umf. Selfoss, varð í 2. sæti í kjörinu með 76 stig og Heiðrún Anna Hlynsdóttir, Golfklúbbi Selfoss, í 3. sæti með 44 stig.

Hergeir er fyrirliði ríkjandi Íslandsmeistara Selfoss í handbolta. Liðið var í toppbaráttu Olísdeildarinnar á meðan keppni stóð yfir árið 2020, en Íslandsmótinu var aflýst vorið 2020 og svo frestað aftur um haustið vegna Kórónuveirufaraldursins. Hergeir er algjör lykilmaður í liði Selfoss og hefur sannað sig sem einn besti leikmaður deildarinnar í sinni stöðu á báðum endum vallarins.

Hergeir hlaut 76 stig í kjörinu en annar hjá körlunum varð frjálsíþróttamaðurinn Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss með 74 stig og þriðji Arnór Bjarki Eyþórsson, Selfoss Körfu, með 59 stig.

Á uppskeruhátíðinni í kvöld fékk svo handknattleiksdeild Umf. Selfoss hvatningarverðlaun frístunda- og menningarnefndar fyrir öflugt yngri flokka starf og uppbyggingu deildarinnar sl. ár. Guðbjörg Jónsdóttir, formaður nefndarinnar afhenti Þóri Haraldssyni, formanni handknattleiksdeildarinnar viðurkenninguna.

Guðbjörg afhenti Þóri, formanni handknattleiksdeildarinnar, hvatningarverðlaunin. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Uppskeruhátíðin var send út á netinu frá hátíðarsalnum í Grænumörk á Selfossi. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinÁ meiri ferðinni á Suðurstrandarvegi
Næsta greinLangþráður sigur Hamars-Þórs