
Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og motocrossmaðurinn Eric Máni Guðmundsson voru í kvöld útnefnd íþróttakona og íþróttakarl Ungmennafélags Selfoss árið 2025. Verðlaunahátíð ungmennafélagsins fór fram í félagsheimilinu Tíbrá í kvöld.
Eva María er efst á afrekalista íslenskra kvenna í hástökki á árinu 2025 og í 15. sæti á Evrópulista í flokki 20-22 ára. Á lokamóti bandarísku NCAA háskóladeildarinnar í júní stökk hún yfir 1,84 m sem er þriðja hæsta stökk íslenskrar konu frá upphafi. Í janúar stökk hún yfir 1,80 m innanhúss sem er fimmti besti árangur íslenskrar konu innanhúss frá upphafi.
Eric Máni skipar sér í röð þeirra bestu á Íslandi í motocross. Hann varð Íslandsmeistari í MX2 á árinu og keppti fyrir Íslands hönd í Motocoss of Nations í Bandaríkjunum, sem er stærsta liðakeppni í heimi. Eric Máni var kjörinn akstursíþróttamaður ársins 2025 hjá Mótorhjóla- og snjósleðaíþróttasambandi Íslands.