Eva María og Egill íþróttafólk ársins í Árborg

Egill Blöndal og Eva María Baldursdóttir hlutu verðlaunin árið 2021. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir og júdómaðurinn Egill Blöndal, bæði úr Ungmennafélagi Selfoss, voru útnefnd íþróttafólk Árborgar 2021 á uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar á Hótel Selfossi í kvöld.

Sérstök valnefnd kaus í kjörinu en einnig var netkosning fyrir almenning sem gilti 20% á móti vali nefndarinnar. Metþátttaka var í netkosningunni og bárust um 2.000 atkvæði.

Eva María sigraði með yfirburðum hjá konunum, hlaut 91 stig af 102 mögulegum. Í 2. sæti varð Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, leikmaður kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu og fyrirliði U19 ára landsliðsins með 60 stig og í 3. sæti varð Glódís Rún Sigurðardóttir, hestaíþróttakona úr Sleipni með 52 stig.

Hjá körlunum var virkilega mjótt á mununum og munaði aðeins sex stigum á efsta og þriðja sætinu. Egill Blöndal hlaut 58 stig, í 2. sæti varð Hergeir Grímsson, fyrirliði karlaliðs Selfoss í handbolta með 56 stig og þriðji varð lyftingamaðurinn Bjarki Breiðfjörð Björnsson með 52 stig.

Alls voru 25 íþróttamenn tilnefndir í kjörinu, níu konur og sextán karlar.

Eva María er Íslandsmeistari kvenna í hástökki innanhúss og Íslandsmeistari í sínum aldursflokki, bæði innan- og utanhúss. Hún vann besta afrek ársins í hástökki og er í landsliði Íslands í fullorðinsflokki, auk þess sem hún er í stórmótahópi FRÍ og hefur verið að ná lágmörkum inn á flest stórmótin síðustu misserin.

Egill Blöndal varð á árinu Íslandsmeistari í -90 kg flokki auk þess sem hann sigraði í sínum þyngdarflokki á Reykjavík International Games. Hann var valinn til að keppa fyrir Íslands hönd á Evrópumeistaramótinu í Portúgal og er einn af öflugustu júdómönnum landsins.

Auk viðurkenninga til íþróttafólksins voru árleg hvatningarverðlaun frístunda- og menningarnefndar veitt og að þessu sinni komu þau í hlut unglingastarfs Björgunarfélags Árborgar.

Alls voru 25 íþróttamenn tilnefndir í kjörinu og áttu 15 þeirra heimangengt í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Guðbjörg Jónsdóttir, formaður nefndarinnar, afhenti Sesselju Sólveigu Birgisdóttur, fyrir hönd Björgunarfélags Árborgar, hvatningarverðlaunin í Björgunarmiðstöðinni á Selfossi. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinÁrborg er öflugt samfélag með mikil tækifæri
Næsta greinFjarheilbrigðisþjónusta á Suðurlandi eflist