Eva María og Aron Emil íþróttafólk Árborgar

Eva María og Aron Emil með viðurkenningar sínar á Hótel Selfossi í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Frjálsíþróttakonan Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss og kylfingurinn Aron Emil Gunnarsson, Golfklúbbi Selfoss, voru útnefnd íþróttafólk Árborgar 2022 á uppskeruhátíð frístunda- og menningarnefndar Sveitarfélagsins Árborgar á Hótel Selfossi í kvöld.

Sérstök valnefnd kaus í kjörinu en einnig var netkosning fyrir almenning sem gilti 20% á móti vali nefndarinnar. Þátttaka í netkosningunni var góð og bárust um 2.000 atkvæði.

Æsispennandi kosning
Mjótt var á mununum í kosningunni og hjá konunum munaði aðeins fjórum stigum á efsta og þriðja sætinu en Eva María hlaut 74 stig í kjörinu. Í 2. sæti varð Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir, leikmaður kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu og fyrirliði U19 ára landsliðsins með 71 stig og í 3. sæti varð Heiðrún Anna Hlynsdóttir, kylfingur úr Golfklúbbi Selfoss með 70 stig.

Hjá körlunum hlaut Aron Emil 81 stig, júdómaðurinn Egill Blöndal varð í 2. sæti með 80 stig og í 3. sæti varð körfuknattleiksmaðurinn Birkir Hrafn Eyþórsson, úr Körfuknattleiksfélagi Selfoss, með 39 stig.

Alls voru 23 íþróttamenn tilnefndir í kjörinu, átta konur og fimmtán karlar.

Frábært ár hjá íþróttafólkinu
Eva María er varði Íslandsmeistaratitil sinn í hástökki á árinu auk þess að verða Íslandsmeistari 15-22 ára innanhúss. Þá hlaut hún gullverðlaun á Reykjavik International Games og varð í 4. sæti á Norðurlandameistaramótinu utanhúss en Eva María hefur fest sig í sessi sem einn allra sterkasti hástökkvarinn á Norðurlöndunum og ein sú allra efnilegasta í Evrópu og heiminum um þessar mundir.

Aron Emil spilaði á Evrópumótinu í golfi með A-landsliði karla. Hann endaði í 4. sæti á Íslandsmótinu í holukeppni, 3. sæti á Íslandsmóti unglinga og endaði í 6. sæti á stigalista GSÍ mótaraðarinna. Einnig endaði hann annar efstur íslenskra kylfinga á heimslista áhugamanna í golfi.

Auk viðurkenninga til íþróttafólksins voru árleg hvatningarverðlaun frístunda- og menningarnefndar veitt og að þessu sinni komu þau í hlut heilsueflingar eldri borgara og tóku fulltrúar Félags eldri borgara við viðurkenningunni ásamt Berglindi Elíasdóttur þjálfara.

Hreyfihópur eldri borgara tók við hvatningarverðlaunum Árborgar ásamt þjálfara sínum, Berglindi Elíasdóttur. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinGuðmundur og Stefán ráðnir yfir framkvæmdasvið Landeldis
Næsta greinÓmar Ingi íþróttamaður ársins og Þórir þjálfari ársins