Eva María með silfur í Gautaborg – fjögur HSK met féllu

Sindri Freyr, Hildur Helga, Eva María, Dagur Fannar og Birta Sigurborg ásamt Rúnari Hjálmarssyni, þjálfara, á Ullevi leikvanginum í Gautaborg. Ljósmynd/Sigurður Kristinn Guðbjörnsson

Fimm sunnlenskir keppendur tóku þátt á Gautaborgarleikunum, heimsleikum unglinga í frjálsum íþróttum í Svíþjóð um helgina og náðu góðum árangri.

Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, vann silfurverðlaun í hástökki í flokki 16 ára stúlkna en hún stökk 1,71 m, sem er sama hæð og sigurvegarinn Karla Schärfe frá Danmörku fór yfir.

Spretthlaupararnir Sindri Freyr Seim Sigurðsson, Umf. Heklu, og Dagur Fannar Einarsson, Umf. Selfoss, hlupu vel á mótinu og settu báðir tvenn HSK met.

Sindri bætti tvö HSK met í 200 m hlaupi þegar hann hljóp á 22,97 sek í -1,6 mótvindi og varð í 6. sæti. Hann bætti þar með met Dags Fannars í aldursflokknum 15-16 ára um 0,56 sekúndur. Ekki nóg með það, því tíminn er einnig HSK met í flokki 18-19 ára pilta og þar bætti Sindri – sem er aðeins 16 ára gamall – 32 ára gamalt met Ólafs Guðmundssonar frá 1987 um 0,03 sekúndur. Sindri hljóp einnig 100 m hlaup þar sem hann komst í B-úrslit og varð í 9. sæti í heildina.

Dagur Fannar lét heldur ekki sitt eftir liggja því hann bætti eigið HSK met í 300 m grindahlaupi í 15-16 ára flokki um 0,59 sek þegar hann hljóp á 40,96 sekúndum og varð í 10. sæti. Þá bætti Dagur Fannar einnig 22 ára gamalt met í 400 m hlaupi í sama aldursflokki þegar hann hljóp á 51,86 sek og varð í 12. sæti. Þetta er bæting um 0,35 sek en gamla metið átti Auðunn Jóhannsson og það var sett árið 1997.

Hildur Helga Einarsdóttir, Umf. Selfoss, og Birta Sigurborg Úlfarsdóttir, Íþf. Dímon, voru einnig meðal keppenda á mótinu. Hildur Helga keppti í spjótkasti og kúluvarpi og varð í 8. sæti í seinni kúlunni. Birta Sigurborg keppti í fjórum greinum og varð meðal annars í 20. sæti í 300 m grindahlaupi.

Eva María á verðlaunapalli. Ljósmynd/Svava Steingrímsdóttir
Fyrri greinÆfðu viðbrögð vegna gróðurelda með Landhelgisgæslunni
Næsta greinÁrborgarar nálgast tíunda þúsundið