Eva María með mótsmet og þrjú ný HSK-met

Eva María Baldursdóttir með gullverðlaunin á Höfn í Hornafirði. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hástökkvarinn Eva María Baldursdóttir, Umf. Selfoss, heldur áfram að bæta sinn besta árangur en í gær setti hún mótsmet og þrefalt HSK met á Unglingalandsmótinu á Höfn í Hornafirði.

Eva María, sem er 16 ára gömul, sigraði í hástökkskeppni 16-17 ára með því að stökkva 1,76 m og bæta sinn besta árangur um 1 sm. Eva, sem varð í sumar Íslandsmeistari í kvennaflokki í hástökki, bætti í leiðinni sín eigin HSK met í þremur flokkum; 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Stökkið er áttunda besta stökk íslenskrar konu frá upphafi í hástökki og skipar henni í 29. sæti í hástökki á Evrópulista 17 ára og yngri sumarið 2019 og númer 37 á heimslistanum.

Keppendur frá HSK stóðu sig feikivel í frjálsum íþróttum á fyrsta keppnisdegi Unglingalandsmótsins og rökuðu samtals inn 26 verðlaunum, þar af þrettán gullverðlaunum.

Fyrri grein„Allir í sólskinsskapi“
Næsta greinEngin tilboð í brúarsmíði í Öræfum og Suðursveit