Eva María með mótsmet – Fimm HSK met slegin

Eva María Baldursdóttir á verðlaunapalli í hástökki ásamt Birtu Maríu Haraldsdóttur, FH og Katrínu Tinnu Pétursdóttur, Fjölni. Ljósmynd/Helgi S. Haraldsson

Lið HSK/Selfoss varð í 3. sæti á Meistaramóti Íslands 15-22 ára í frjálsum íþróttum sem haldið var í Kaplakrika í Hafnarfirði um helgina. 

HSK/Selfoss fékk 244,5 stig og var talsvert á eftir Breiðabliki sem varð í 2. sæti með 355,5 stig og ÍR sem sigraði með 449,5 stig.

HSK/Selfoss sigraði í einum aldursflokki, flokki pilta 16-17 ára.

Eva María Baldursdóttir setti mótsmet þegar hún tryggði sér Íslandsmeistaratitilinn í hástökki stúlkna 16-17 ára. Eva María stökk yfir 1,72 metra sem er einum sentimetra frá hennar besta árangri innanhúss. 

Tómas Þorsteinsson og Dagur Fannar Einarsson urðu báðir þrefaldir Íslandsmeistarar. Tómas sigraði í 60 m hlaupi, þrístökki og kúluvarpi í flokki 15 ára pilta og Dagur Fannar sigraði í 60 m grindahlaupi, langstökki og 400 m hlaupi í flokki 18-19 ára pilta. 

Fimm héraðsmet féllu á mótinu. Dagur Fannar hljóp 60 m hlaup á 7,15 sek og varð í 2. sæti en tíminn er HSK met í flokkum 18-19 ára og 20-22 ára.

Þá setti Sindri Freyr Seim Sigurðsson þrjú HSK met þegar hann hljóp 200 m hlaup og sigraði í flokki 16-17 ára pilta á 23,09 sek. Tíminn er héraðsmet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára.

Tómas Þorsteinsson (t.v.) þrefaldur Íslandsmeistari, ásamt Sebastian Þór Bjarnasyni sem varð Íslandsmeistari í langstökki og 4×200 m boðhlaupi pilta 16-17 ára. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Dagur Fannar Einarsson efstur á palli í 400 m hlaupi, ásamt Gísla Igor Zanen, ÍR og Jakub Tomasz Sidor, HSK/Selfoss. Ljósmynd/Helgi S. Haraldsson
Sindri Seim á verðlaunapalli í 200 m boðhlaupi ásamt Bergi Sigurlinna Sigurðssyni, ÍR og Anthony Vilhjálmssyni, Ármanni. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Sigurlið HSK/Selfoss í flokki pilta 16-17 ára. (Efri röð f.v.) Brynjar Logi Sölvason, Hjalti, Haukur Arnarsson og Goði Gnýr Guðjónsson. (Neðri röð f.v.) Sebastian Þór Bjarnason, Unnsteinn Reynisson, Sindri Freyr Seim Sigurðsson og Elías Örn Jónsson. Ljósmynd/Ólafur Guðmundsson
Fyrri greinRíkið veitir 5 milljónir í frekari hönnun á menningarsalnum
Næsta greinGóður útisigur Selfyssinga