Eva María heldur áfram að bæta sig

Eva María keppir fyrir University of Pittsburgh.

Selfyssingurinn Eva María Baldursdóttir gerði sér lítið fyrir og vippaði sér yfir 1,84 m í hástökki á lokamóti bandarísku NCAA háskóladeildarinnar sem fram fór í Eugene í Oregon um helgina.

Eva María náði 12. sæti en stúlkurnar í sætum sjö til tólf stukku allar yfir 1,84 m. Eva María, sem keppir fyrir University of Pittsburgh, bætti sinn besta árangur um 2 cm og setti í leiðinni HSK met í flokki 20-22 ára. Úrslitin skiluðu henni sæti í svökölluðu öðru All-American liði eða öðru úrvalsliði bandarísku háskólanna.

Árangur Evu Maríu er jafnframt þriðja hæsta stökk íslenskrar konu frá upphafi og skipar henni í 19. sæti á topplista hástökkvara í Evrópu undir 23 ára aldri.

Það verður spennandi að fylgjast með Evu Maríu í keppnum sumarsins en hún hefur nú þegar náð lágmarki á Evrópumeistaramót U23 sem verður í Bergen í Noregi í júlí.

Fyrri greinHjálmar Vilhelm stórbætti sig og setti Íslandsmet
Næsta greinVeiðidagur í Óseyrarnesi sumarið 1993