Eva María bætti 25 ára gamalt Íslandsmet

Eva María Baldursdóttir. Ljósmynd/FRÍ

Eva María Baldursdóttir, Umf Selfoss, náði þeim frábæra árangri að stökkva yfir 1,81 m á Hástökksmóti Selfoss sem haldið var í kvöld.

Eva María bætti þar með 25 ára gamalt Íslandsmet Völu Flosadóttur í flokki 16-17 ára um 1 sm. Þetta var bæting hjá Evu Maríu um 3 sm og um leið héraðsmet í flokkum 16-17 ára, 18-19 ára og 20-22 ára en þau met átti hún sjálf.

Þetta er þriðji besti árangur í hástökki kvenna frá upphafi á Íslandi en Íslandsmetið i kvennaflokki á Skarphéðinskonan Þórdís Gísladóttir og er það 1,88 m og sett árið 1990.

Eva María er með þessu stökki í 3. sæti á Evrópulistanum í flokki 17 ára og yngri og í 6. sæti á heimslistanum í flokki 17 ára og yngri.  

Myndband af metstökkinu má sjá hér að neðan en í lok þess má heyra Rúnar Hjálmarsson, þjálfara Evu Maríu, fagna. Eva María hefur æft undir handleiðslu Rúnars frá því síðasta haust og bætt sig jafnt og þétt á meðan.

Fyrri greinLengsta skip sem komið hefur til Þorlákshafnar
Næsta greinMikilvægur sigur Ægismanna