Eva María afreksmaður frjálsíþróttadeildar Selfoss

Verðlaunahafar (efri röð f.v.) Daníel Breki, Hjalti Snær, Eva María og Álfrún Diljá. (Neðri röð f.v.) Hróbjartur og Anna Kristín. Ljósmynd/Gissur Jónsson

Aðalfundur frjálsíþróttadeildar Selfoss fór fram í Tíbrá fimmtudaginn 6. febrúar. Á fundinum voru veittar viðurkenningar til iðkenda fyrir árangur seinasta árs auk þess sem stjórn deildarinnar var að langmestu leyti endurkjörin.

Eva María Baldursdóttir var verðlaunuð sem afreksmaður frjálsíþróttadeildarinnar og Hjalti Snær Helgason hlaut framfarabikar frjálsíþróttadeildarinnar. Álfrún Diljá Kristínardóttir er afreksmaður 14 ára og yngri og Daníel Breki Elvarsson hlaut framfarabikar 14 ára og yngri. Þá fengu Hróbjartur Vigfússon og Anna Kristín Bjarkadóttir verðlaun fyrir góða mætingu í flokkum 10 ára og yngri.

Starfsemi deildarinnar er til mikillar fyrirmyndar og rekstur í föstum skorðum.

Á fundinum fékk deildin endurnýjun viðurkenningar sinnar sem Fyrirmyndardeild ÍSÍ en Fyrirmyndarfélag ÍSÍ og Fyrirmyndarhérað ÍSÍ eru gæðaverkefni íþróttahreyfingarinnar er snúa að íþróttastarfi. Er þetta viðurkenning á því að deildin standist gæðaviðurkenningu ÍSÍ fyrir íþróttastarf.

Helgi S. Haraldsson er áfram formaður frjálsíþróttadeildarinnar og með honum í stjórn eru Helga Sigurðardóttir gjaldkeri, Þuríður Ingvarsdóttir ritari, Elvar Atli Hallsson, Svanhildur Gunnlaugsdóttir, Svava Steingrímsdóttir, Sigríður Anna Guðjónsdóttir yfirþjálfari og starfsmaður og Ingibjörg Hugrún Jóhannesdóttir, fulltrúi iðkenda 16-25 ára sem kemur ný inn í stjórn.

Fyrri greinVerslanir Jötuns opnaðar aftur
Næsta greinAftakaveður í kortunum – Búist við veglokunum