Eva Lind framlengir samning við Selfoss

Eva Lind Elíasdóttir. Ljósmynd/Gissur Jónsson

Eva Lind Elíasdóttir skrifaði í síðustu viku undir nýjan tveggja ára samning við knattspyrnudeild Selfoss.

Eva Lind er 25 ára gamall sóknarmaður sem hefur leikið 150 leiki fyrir Selfoss og skorað í þeim 32 mörk. Síðustu ár hefur hún ekki náð heilu tímabili með Selfossi þar sem hún hefur verið í háskólanámi í Kansas og spilað í bandaríska háskólaboltanum með Kansas Jayhawks. Hún hefur nú lokið námi og framundan er fyrsta heila knattspyrnusumarið á Selfossi síðan 2015.

„Það er frábært að Eva Lind sé klár í slaginn og loksins nær hún að taka heilt undirbúningstímabil með okkur eftir tíma sinn í Bandaríkjunum. Hún er sterkur leikmaður verður mikilvægur hlekkur í hópnum okkar á næsta tímabili,“ segir Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss.

Fyrri greinForval hjá Vinstri grænum á Suðurlandi
Næsta greinHugmyndafræði hringrásarhagkerfis skoðuð í Hveragerði