„Erum í ansi vondum málum“

Selfyssingar sitja ennþá í fallsæti í Inkasso-deild karla í knattspyrnu þegar þrjár umferðir eru eftir, en í kvöld tapaði liðið 1-2 gegn Leikni á heimavelli.

„Við erum í ansi vondum málum, vægast sagt. Við verðum að vera bjartsýnir. Það er enginn búinn að kasta inn handklæðinu. Það er stutt upp úr botni en auðvitað erum við á honum,” sagði Stefán Ragnar Guðlaugsson, fyrirliði Selfoss, í samtali við fotbolti.net eftir leik.

Leiknismenn voru heilt yfir sterkari í leiknum og þeir komust yfir á 13. mínútu með marki Ólafs Kristjánssonar uppúr hornspyrnu. Strax í næstu sókn náði Ingi Rafn Ingibergsson góðu skoti á mark Leiknis eftir snarpa sókn en markvörður Leiknis varði. Það var besta færi Selfoss í fyrri hálfleik.

Fátt var um færi í síðari hálfleik og sóknarleikur Selfoss var ekki burðugur. Á 70. mínútu syrti enn frekar í álinn hjá þeim vínrauðu þegar Svavar Jóhannsson fékk sitt annað gula spjald og var sendur í sturtu.

Í kjölfarið hresstust Selfyssingar reyndar nokkuð og á 78. mínútu náði Hrvoje Tokic að jafna metin þegar hann potaði boltanum í markið af stuttu færi eftir hornspyrnu.

Selfyssingar tefldu á tvær hættur í lokin til þess að ná sigrinum en Leiknismenn refsuðu þeim á lokamínútunni þegar Sólon Breki Leifsson lék á varnarmann Selfoss og skoraði af öryggi úr góðu færi.

Leiknismenn hafa með sigrinum kvatt falldrauginn endanlega en Selfyssingar sitja í súpunni, hafa 15 stig í 11. sæti og framundan eru erfiðir leikir gegn Þór á útivelli og toppliði ÍA á heimavelli.

Fyrri greinSveitarstjórn vill að ríkið bæti tjónið í Norðurhjáleigu
Næsta grein„Allir að bíða eftir því að þetta byrji“