„Erum einu skrefi nær markmiðinu“

„Leikurinn var ótrúlega góður, ótrúlega skemmtilegur. Mikill hraði og mikil gæði og mér fannst við betra liðið í sjötíu mínútur.“

Þetta sagði Gunnar Rafn Borgþórsson, þjálfari kvennaliðs Selfoss í knattspyrnu, í samtali við sunnlenska.is eftir 2-1 tap gegn Stjörnunni í úrslitaleik Borgunarbikarsins á Laugardalsvellinum í dag.

„Við komumst yfir í seinni hálfleik og í kjölfarið kemur kannski reynsluleysið í ljós. Þá ætlum við að fara að halda forystunni og erum hræddar um að tapa þessu niður,“ sagði Gunnar, sem var ánægður með spilamennsku liðsins lengst af leiknum.

„Við vissum alveg hvað við þurftum að gera til að stoppa þær, og við gerðum það í fyrri hálfleik. Við vorum framarlega og lokuðum á löngu boltana hjá þeim og það gekk ótrúlega vel upp. Við áttum góðar sóknir og góð færi í fyrri hálfleik og pressuðum vel á þær. Við áttum tvo þrjá góða sénsa og marga hálfsénsa á móti góðu liði eins og Stjörnunni.

Á meðan fannst mér þær ekki vera að skapa sér mikið. Þetta opnaðist í seinni hálfleik af því að við ætluðum að sækja mark en gerum svo þau mistök í kjölfarið að falla neðar á völlinn,“ sagði Gunnar, en í kjölfarið opnuðust leiðir fyrir Stjörnukonur upp að marki Selfoss.

„Þá fékk Stjarnan tíma til að senda boltann og þær fara að græða hornspyrnur sem þær voru ekki að fá í fyrri hálfleik. Í lokin er þetta reynslan hjá þeim og reynsluleysið hjá okkur sem verður þess valdandi að við föllum of neðarlega því við ætlum að reyna að halda forystunni.“

Selfossliðið fékk gríðarlega góðan stuðning úr stúkunni og dagurinn allur var hátíðisdagur á Selfossi. Gunnar segir að þetta sé alveg einstakt.

„Dagurinn er tekinn snemma og bæjarbúar eru með okkur í þessu. Það er ótrúlegur heiður að fá að taka þátt í þessu verkefni. Það er slegið áhorfendamet hérna í dag og við vorum að fá ótrúlega góðan stuðning.

Þó að liðið tapi núna þá erum við einu skrefi nær markmiðinu að vinna bikar. Liðið er ungt og með ótrúlega stutta sögu í úrvalsdeild en er samt að ná svona góðum árangri. Við töpum núna á lokamínútum í bikarúrslitaleik og sitjum í 3. sæti í deildinni með 16 Sunnlendinga í 24 manna hópi. Þetta er kvennaknattspyrnunni á Suðurlandi til mikils framdráttar og ég er mjög stoltur af þessu.“

Fyrri greinÆgir og KFR áfram í fallhættu
Næsta greinMenntuðum leikskólakennurum boðið upp á flutningsstyrk