Erla Þórey Ólafsdóttir tók við sem nýr formaður Ungmennasambands Vestur-Skaftafellssýslu á sambandsþingi sem haldið var í Skaftárstofu í Vatnajökulsþjóðgarði í síðustu viku.
Erla Þórey tekur við keflinu af Fanneyju Ásgeirsdóttur sem hefur verið formaður síðastliðin fjögur ár. Erla þekkir störf ungmennasambandsins vel enda verið framkvæmdastjóri þess undanfarin misseri en hún lætur af þeim störfum í lok apríl.
Á þingi USVS í fyrra kom upp sú tillaga að verðlauna sjálfboðaliða ársins og lið ársins á þingum USVS um komandi ár. Því var fylgt eftir og var Fanney Ólöf Lárusdóttir, stjórnarmaður, heiðruð sem sjálfboðaliði ársins og 5. flokkur drengja USVS í knattspyrnu lið ársins en það er sameiginlegt lið Ungmennafélagsins Ás og Ungmennafélagsins Kötlu.
Ármann og Skafti sameinast í Umf. Ás
Fyrr á þessu ári sameinuðust ungmennafélögin í Skaftárhreppi, Ármann og Skafti, í Ungmennafélagið Ás. Hið nýja ungmennafélag heldur áfram að nota kennitölu fyrrum Ármanns og var því samþykkt tillaga á þinginu að leggja niður Ungmennafélagið Skafta. Sú tillaga var samþykkt.
Sigríður og Andri heiðruð
Einnig fóru fram heiðranir fyrir íþróttamann ársins 2023 og efnilegasta íþróttamann ársins 2023. Þær hlutu Sigríður Ingibjörg Einarsdóttir sem íþróttamaður ársins og Andri Berg Jóhannsson sem efnilegasti íþróttamaður ársins. Sigríður Ingibjörg stóð sig mjög vel á árinu í hestaíþróttum með hryssuna sína Ylfu frá Miðengi og Andri Berg náði glæsilegum árangri í motorcross á árinu.