Erik hættur með FSu

Erik Olson mun láta af störfum sem aðalþjálfari Körfuknattleiksfélags FSu að eigin ósk en hann hefur verið aðalþjálfari félagsins undanfarin fjögur ár.

Í samtali við sunnlenska.is segir Erik að hann hafi haft hug á því að leita að nýju þjálfarastarfi og hann hafi tilkynnt stjórn félagsins það fyrir nokkru síðan.

Á heimasíðu félagsins segir að samhljómur hafi verið um það, bæði hjá stjórn og þjálfara, að nú sé rétti tíminn fyrir nýjar áherslur og nýtt upphaf. FSu mun því auglýsa aðalþjálfarastöðuna lausa til umsóknar á næstu dögum og Erik hefur þegar hafið leit að nýju þjálfarastarfi.

Erik hefur unnið mjög gott starf fyrir FSu en undir hans stjórn efldist akademía félagsins ásamt því að árangur meistaraflokksliðs þess batnaði ár frá ári þar til liðið komst upp í efstu deild í fyrravor. Liðið féll úr Domino’s-deildinni í vetur og mun leika í 1. deildinni næsta vetur.

UPPFÆRT KL. 15:23

Fyrri greinLeitað að vitnum að umferðarslysi
Næsta greinÆgi spáð falli