Erfitt hjá Selfossi í seinni hálfleik

Perla Ruth Albertsdóttir var best í liði Selfoss í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 27-20 þegar liðið heimsótti Hauka á Ásvelli í Hafnarfirði í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld.

Haukar náðu fljótlega frumkvæðinu og leiddi 6-3 eftir tíu mínútna leik. Selfyssingar gerðu þá 5-1 áhlaup og komust yfir 7-8 á átta mínútna kafla. Haukakonur létu ekki segjast heldur bættu í og juku forskotið í fjögur mörk og staðan var 15-11 í leikhléi.

Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar í upphafi seinni hálfleiks þar sem Haukar nánast gerðu út um leikinn. Haukar náðu sjö marka forskoti, 20-13, og gáfu lítið eftir eftir það. Selfoss náði að minnka muninn í fjögur mörk en þá tóku Haukarnir aftur við sér og að lokum skildu sjö mörk liðin að, 27-20.

Hulda Dís Þrastardóttir og Perla Ruth Albertsdóttir skoruðu báðar 5 mörk fyrir Selfoss og Perla átti mjög góðan leik, var með 100% skotnýtingu og sterk í vörninni. Carmen Palamariu skoraði 3 mörk, Sarah Boye Sörensen og Harpa Sólveig Brynjarsdóttir báðar 3/1 og Katla María Magnúsdóttir skoraði 1 mark.

Katrín Ósk Magnúsdóttir varði 13 skot í marki Selfoss og var með 32,5% markvörslu.

Selfoss er sem fyrr í botnsæti deildarinnar með 4 stig en Haukar eru í 3. sæti með 21 stig.

Fyrri greinSkortur á stefnuljósanotkun pirrar ökumenn mest í umferðinni
Næsta greinHluta Flóaskóla lokað vegna myglu