Erfitt hjá Rangæingum

Knattspyrnufélag Rangæinga átti erfitt uppdráttar í dag gegn toppliði Völsungs þegar liðin mættust í 2. deild karla í knattspyrnu. Völsungur sigraði 1-4.

Aðstæður á Hvolsvelli voru ekki þær bestu, rok og rigning á köflum auk þess sem kjötsúpuát helgarinnar virtist Rangæingum þungt í maga.

Strax á 7. mínútu komust gestirnir í 0-1 og rúmum tíu mínútum síðar var staðan orðin 0-2. Markið verður líklega skrifað sem sjálfsmark Rangæinga eftir barning í vítateig þeirra.

Mariusz Baranowski minnkaði muninn í 1-2 á 29. mínútu en Völsungar komust í 1-3 á 40. mínútu með glæsiskoti með vindinum utan af velli upp í samskeytin.

Staðan var 1-3 í hálfleik þrátt fyrir ágæta kafla hjá KFR en í síðari hálfleik tóku Völsungar öll völd á vellinum og lítið var að gerast í sóknarleik KFR. Völsungur bætti við fjórða markinu á 65. mínútu þegar þeir spiluðu sig í gegnum flata vörn KFR og reyndist það síðasta mark leiksins.

Fyrri greinTókst ekki að kveða niður falldrauginn
Næsta greinHlynur Geir í góðum málum