Erfitt gegn Íslandsmeisturunum

Selfoss beið lægri hlut þegar Íslandsmeistaralið Vals kom í heimsókn í N1-deild kvenna í handbolta í dag. Lokatölur í Vallaskóla voru 12-28.

Valur skoraði þrjú fyrstu mörk leiksins en Selfyssingar komust ekkert áleiðis í sókninni auk þess sem markvörður Vals varði fyrstu fjögur skot Selfyssinga. Valur spilaði stærstan tímann ákafa 3-2 og 3-3 vörn í fyrri hálfleik sem Selfyssingar réðu ekkert við enda vantaði allan hreyfanleika í sóknarlotum liðsins.

Selfoss minnkaði muninn í 3-5 og þegar mínúta var eftir af fyrri hálfleik var staðan 6-10 en Valskonur skoruðu þrjú mörk á lokamínútu fyrri hálfleiks og leiddu í leikhléinu, 6-13.

Eins og í fyrri hálfleik skoraði Valur fyrstu þrjú mörkin í seinni hálfleik en þá tók við góður 5-4 kafli hjá Selfyssingum þar sem Ásdís Ingvarsdóttir varði vel, nýkomin inná í markið hjá Selfyssingum. Valsmenn tóku svo aftur á sprett undir lokin en þrátt fyrir ágæt tilþrif í framan af fyrri hálfleik tókst Selfyssingum ekki að fylgja því eftir og skoruðu þær lítið á lokamínútum leiksins.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst Selfyssinga með 5/1 mörk. Þuríður Guðjónsdóttir skoraði 3 mörk, Kristrún Steinþórsdóttir 2 og þær Kara Rún Árnadóttir og Dagný Hanna Hróbjartsdóttir skoruðu sitt markið hvor.

Ásdís Ingvarsdóttir varði 6 skot í marki Selfoss og var með 40% markvörslu og Áslaug Ýr Bragadóttir varði 5 skot og var með 21% markvörslu. Markverðir Vals voru í miklum ham hinu megin á vellinum, landsliðsmarkvörðurinn Guðrún Jenný Ásmundsdóttir varði 15/1 skot og var með 58% markvörslu og Sigríður Ólafsdóttir varði 3 skot og var með 75% markvörslu.