„Erfitt að lýsa þessu ævintýri“

Selfyssingurinn Jón Daði Böðvarsson átti erfitt með að koma tilfinningum sínum í orð eftir að karlalið Íslands í knattspyrnu hafði tryggt sér farseðilinn á Evrópumótið í Frakklandi á næsta ári.

„Þetta var ógeðslega gaman. Ég hef eiginlega engin lýsingarorð yfir þetta. „Ég er stoltur. Ég er stoltur af mér og liðinu. Þegar maður lítur til baka þegar maður var að spila á Selfossi þá hafði maður kannski ekki trú á því að maður yrði allt í einu kominn á þennan stað í dag,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is.

„Ég var ofvirkur lítill strákur á Selfossi að spila fótbolta á fullu og ímyndaði mér að ég væri að skora fyrir landsliðið. Ég var á gamla malarvellinum á Selfossi, þar sem maður bjó til sandhóla til að taka aukaspyrnur. Þarna var maður sparkandi allan daginn og kom heim blóðugur og rispaður og mamma alveg brjáluð. Nú er ég búinn að skora fyrir landsliðið og er einhvern veginn fastur í þessum hópi. Þetta er tilfinningaþrungið. Þetta er góð tilfinning, en það er erfitt að lýsa þessu ævintýri.“

Og Jón lýsir upplifuninni í leikslok í kvöld. „Gæsahúð. Um leið og lokaflautið kom þá fékk ég alveg króníska gæsahúð. Maður horfði yfir allt fólkið, myndavélar út um allt og allur völlurinn að syngja „Ég er kominn heim“. Þetta var alveg fáránlegt.“

Jón Daði var í byrjunarliðinu og var besti maður vallarins í kvöld. Honum var skipt útaf, fyrir Viðar Örn Kjartansson, þegar tæpar tíu mínútur voru eftir.

„Mér fannst ég standa mig ágætlega. Ég reyndi að ógna á bakvið eins og ég gat og þjösnaðist á þeim. Þeir voru mjög þéttir fyrir og harðir í horn að taka en ég reyndi að skapa pláss og mér fannst við spila vel. Við hefðum getað þjarmað meira að þeim en þegar það var lítið eftir af leiknum og staðan 0-0 þá vildum við bara sigla þessu heim.

Það var líka gaman að sjá Viðar koma inná, hann átti það skilið. Við bíðum ennþá eftir að fá að vera saman inni á vellinum, það væri alveg rosalega gaman, tveir Selfyssingar frammi,“ sagði Jón Daði og bætti við að síðasta vika með landsliðinu hafi verið virkilega flott.

„Ég kem inn í þetta verkefni með miklu meira sjálfstraust en síðast. Það er búið að ganga vel í Noregi, ég er að byrja alla leiki þar, er að skora miklu meira en ég gerði og er í góðu formi. Þannig að mér fannst þægilegra að koma inn í þetta verkefni heldur en síðast,“ segir Jón en hann var einnig í byrjunarliðinu í 0-1 sigrinum gegn Hollandi á fimmtudagskvöld.

„Það var magnað að spila gegn Hollendingunum úti í Amsterdam. Þetta var að ég held mesti áhorfendafjöldi sem ég hef spilað fyrir framan, 53 þúsund manns. Það var rosalegur hávaði og alveg lygilegt að maður gat ekkert kallað á samherja sína í þessum látum. En þetta var ógeðslega gaman og frábært að spila á móti þessum köllum.

Þetta er búin að vera frábær vika. Við erum búnir að tryggja okkur sæti á EM og ætlum að skemmta okkur í kvöld. Svo er það bara heim í vinnuna til Noregs á morgun.“

Fyrri grein„Gætum truflað allar varnir í heiminum“
Næsta greinVélarvana bátur dreginn að landi