„Erfitt að kyngja þessu“

„Mér fannst við hreinlega ekki nógu góðir í kvöld og þess vegna töpuðum við leiknum,“ sagði Guðmundur Benediktsson, þjálfari Selfoss, eftir leikinn gegn ÍBV.

„Stemmningin virkaði góð fyrir leik og menn virtust telja sjálfum sér og mér trú um að menn væru tilbúnir, enda ekki annað í boði í þeirri stöðu sem við erum í. En ég verð að segja alveg eins og er að þegar á reyndi fannst mér of margir ekki vera klárir í slaginn og því fór sem fór,“ sagði Guðmundur í samtali við sunnlenska.is.

Selfyssingar hlupu hvað eftir annað á varnarvegg Eyjamanna og áttu engin svör við góðum leik miðjumanna ÍBV. „Það er óhætt að segja að etta var bragðdauft af okkar hálfu og Eyjamenn þurftu engan stjörnuleik til þess að fara með sigur af hólmi hér í kvöld,“ sagði Guðmundur.

Möguleikar Selfyssinga á að halda sér í deildinni eru nú aðeins tölfræðilegir þegar tvær umferðir eru eftir og ekkert annað en fall blasir við liðinu. „Það er erfitt að tjá sig um þetta núna, maður er ekki alveg búinn að átta sig á þessu. Auðvitað hefðum við viljað vera í góðum séns alveg til loka og það er erfitt að kyngja þessu núna,“ sagði Guðmundur að lokum.

Fyrri greinHamar áfram í Lengjubikarnum
Næsta greinSkoða sandútflutning til Hollands