„Ennþá fullt af stig­um til að spila um“

Grace Sklopan skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Dýrleif Nanna Guðmundsdóttir

Selfoss tók á móti FH í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Gestirnir kláruðu leikinn í fyrri hálfleik og unnu 1-3 sigur.

„Við ákváðum að fara út í seinni hálfleik­inn og sýna að við þyrft­um ekki að skamm­ast okk­ar fyr­ir frammistöðuna, því að þetta voru hreint út sagt al­veg hræðileg­ar gjaf­ir hjá okk­ur í fyrri hálfleikn­um. Seinni hálfleik­ur­inn var að mörgu leiti glæsi­leg­ur. Við erum í mjög vondri stöðu en það er ennþá fullt af stig­um til að spila um og við erum ákveðin í því að klára okk­ar,“ sagði Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Jafnræði var með liðunum framan af en FH-ingar voru mun hættulegri fram á við og þær komust yfir á 25. mínútu með glæsilegu marki. Í kjölfarið riðlaðist leikur Selfyssinga nokkuð og FH nýtti sér þann veikleika til fullnustu og skoraði tvö mörk á næstu tíu mínútum. Staðan var því 0-3 í hálfleik og úrslitin ráðin.

Selfyssingar mættu mun betur stemmdir inn í seinni hálfleikinn og áttu nokkrar álitlegar sóknir. Katrín Ágústsdóttir skaut í þverslána snemma í seinni hálfleik en það var ekki fyrr á á 90. mínútu að heimakonum tókst að koma knettinum í netið. Grace Sklopan skoraði þá beint úr hornspyrnu og reyndist það allra síðasta spyrna leiksins.

Selfoss er áfram í neðsta sæti deildarinnar með 11 stig og nú eru 15 stig eftir í pottinum. Liðið á eftir að leika gegn Þór/KA og Stjörnunni í deildinni og þá tekur við þriggja leikja úrslitakeppni þar sem fjögur neðstu liðin spila innbyrðis.

Fyrri greinHellur og lagnir átti eina tilboðið í göngustíga á Geysi
Næsta greinEinar formaður stjórnar Tónlistarmiðstöðvar