Enn von hjá Árborg – Markaleikur á Flúðavelli

Árborg vann góðan útisigur á Kormáki/Hvöt í 4. deild karla í knattspyrnu í dag á meðan Hrunamenn töpuðu heima gegn Skallagrími.

Árborg og Kormákur/Hvöt mættust á Blönduósi og þar kom Arnar Freyr Óskarsson Árborg yfir strax á 3. mínútu. Kormákur/Hvöt jafnaði með marki úr vítaspyrnu á 20. mínútu og staðan var 1-1 í hálfleik.

Heimamenn voru fyrri til að skora í síðari hálfleik en Daníel Ingi Birgisson jafnaði fyrir Árborg á 65. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni á 82. mínútu og í uppbótartímanum innsiglaði Magnús Helgi Sigurðsson 2-4 sigur Árborgar.

Á Flúðavelli voru Borgnesingar í heimsókn og þar var heldur betur skorað. Skallagrímur var kominn í 0-4 eftir 25. mínútna leik en Hafsteinn Einarsson minnkaði muninn á 27. mínútu og fimm mínútum síðar bætti Hafþór Ingi Ragnarsson við marki. Gestirnir áttu síðasta orðið í fyrri hálfleik og staðan var 2-5 í leikhléi.

Skallagrímur komst í 2-6 á 58. mínútu en mínútu síðar minnkaði Hafþór Ingi muninn í 3-6. Borgnesingar skoruðu hins vegar þrjú síðustu mörkin í leiknum og lokatölur urðu 3-9.

Árborg er í 3. sæti riðilsins með 27 stig en Hrunamenn í 7. sæti með 5 stig. Liðin mætast í lokaumferðinni og þar þurfa Árborgarar á sigri að halda og treysta um leið á að Skallagrímur tapi fyrir toppliði Ýmis, til þess að Árborg komist í úrslitakeppnina.

Fyrri greinHefja undirbúning að hönnun Sigtúnsgarðs
Næsta greinTugmilljónamiðar í Hveragerði og á Klaustri