Enn þyngist róðurinn hjá Hamri/Þór

Mariana Duran var stigahæst hjá Hamri /Þór með 22 stig og 8 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór heimsótti Njarðvík í úrvalsdeild kvenna í körfubolta í kvöld. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar og Njarðvík hafði betur, 88-61.

Hamar/Þór lenti í djúpri holu strax í upphafi leiks en Njarðvík komst í 20-7 á fyrstu sex mínútunum. Staðan var 22-13 eftir 1. leikhluta. Það var allt annað að sjá til þeirra sunnlensku í upphafi 2. leikhluta. Þær tóku góðan sprett og minnkuðu muninn í 30-27. Njarðvík skoraði hins vegar síðustu ellefu stigin í fyrri hálfleik og staðan var 41-27 í hálfleik.

Hamar/Þór svaraði fyrir sig í 3. leikhluta og minnkaði muninn í átta stig. Njarðvík varði forskot sitt vel í 4. leikhluta og þar varð snemma ljóst að Hamar/Þór næði ekki að ógna sigri þeirra.

Mariana Duran var stigahæst hjá Hamri /Þór með 22 stig og 8 fráköst en Jovana Markovic var framlagshæst með 17 stig og 10 fráköst.

Enn þyngist róðurinn hjá Hamri/Þór. Þetta var sjöundi tapleikur liðsins í röð og er það á botni deildarinnar án stiga. Njarðvík er á toppnum með 12 stig.

Njarðvík-Hamar/Þór 88-61 (22-13, 19-14, 18-21, 29-13)
Tölfræði Hamars/Þórs: Mariana Duran 22/8 fráköst, Jovana Markovic 17/10 fráköst, Ellen Iversen 10/8 fráköst, Bergdís Anna Magnúsdóttir 5, Jada Guinn 4/5 fráköst, Jóhanna Ýr Ágústsdóttir 3.

Fyrri greinMiðflokkurinn upp um 10,1 prósent í Suðurkjördæmi
Næsta greinGarpur vann stigabikarinn á héraðsmótinu í borðtennis