Enn tapar FSu

Lið FSu hefur heldur betur misst flugið í 1. deild karla í körfubolta en liðið tapaði í kvöld fimmta leiknum í röð þegar það mætti Skallagrími í Borgarnesi.

Heimamenn voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu í leikhléinu, 49-31. FSu liðið vaknaði til lífsins í síðari hálfleik sem var jafn og spennandi en munurinn á stigatöflunni breyttist lítið. Að lokum skildu 15 stig liðin að, 84-69.

Þegar þrjár umferðir eru eftir þurfa Selfyssingar að halda vel á spöðunum ætli þeir sér í úrslitakeppnina en liðið á eftir að mæta Val og Laugdælum heima og Ármanni úti.

Valur Orri Valsson var stigahæstur hjá FSu með 23 stig, Guðmundur Gunnarsson skoraði 13 og Orri Jónsson 10.