Enn sígur á ógæfuhliðina hjá Þór

Þórsarar eru áfram í næst neðsta sæti Domino's-deildar karla í körfubolta eftir tap gegn ÍR á heimavelli í kvöld, 69-77.

Leikurinn var jafn allan tímann en staðan var 40-42 í leikhléi eftir að gestirnir höfðu skorað síðustu tvö stigin í fyrri hálfleik. Þórsarar komust aftur yfir í 3. leikhluta og þegar rúm mínúta var liðin af 4. leikhluta leiddu Þórsarar 62-58. Þá gerðu gestirnir áhlaup, skoruðu fimmtán stig gegn tveimur og breyttu stöðunni í 64-73 þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Þór klóraði aðeins í bakkann en vannst ekki tími til þess að svara betur fyrir sig.

Jesse Pellot-Rosa var bestur í liði Þórs, skoraði 18 stig og tók 12 fráköst.

Þór hefur tvö stig að loknum sex umferðum í 11. sæti deildarinnar.

Tölfræði Þórs: Jesse Pellot-Rosa 18/12 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 10/4 fráköst/5 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 7/7 fráköst, Ólafur Helgi Jónsson 7, Þorsteinn Már Ragnarsson 7/4 fráköst, Snorri Hrafnkelsson 6/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 6, Adam Eiður Ásgeirsson 5, Magnús Breki Þórðason 3.

Fyrri greinMagdalena Eldey heillaði dómnefndina og salinn
Næsta greinÁrborg vill skoða minni sameiningarkosti