Enn og aftur sex mörk

Þriðja leikinn í röð skorar kvennalið Selfoss sex mörk í leik. Andstæðingurinn í kvöld var Fram og voru lokatölur 6-1 á Selfossvelli.

Selfossliðið var ekki sannfærandi í fyrri hálfleik og það voru gestirnir sem skoruðu fyrsta markið. Selfosskonur unnu sig þó inn í leikinn og náðu að svara með þremur mörkum fyrir hlé.

Síðari hálfleikur var betri hjá Selfossliðinu sem bættu þremur mörkum við og hafa nú skorað 65 mörk í 11 leikjum.

Guðmunda Brynja Óladóttir og systurnar Katrín Ýr og Anna María Friðgeirsdætur skiptu markaskoruninni systurlega á milli sín en allar skoruðu þær tvö mörk.