Enn hægt að taka þátt í verkefninu og ganga á fjöll

Arnarfell við Þingvallarvatn og Vatnsdalsfjall í Rangárþingi eru fjöllin sem HSK tilnefndi í verkefnið fjölskyldan á fjallið í ár, en HSK hefur tilnefnd ný fjöll í þetta verkefni allt frá upphafi verkefnisins fyrir 13 árum síðan.

Verkefnið mun standa til 31. október nk. og eru Sunnlendingar hvattir til að ganga á fjöllin og taka þátt í verkefninu með því að skrifa nafn sitt og símanúmer í gestabækur sem staðsettar eru upp á fjöllunum. Síðar í haust verða dregnir út heppnir þátttakendur sem fá veglegar gjafir frá HSK.

Guðni Guðmundsson á Þverlæk tók þátt í verkefninu í sumar, líkt og undanfarin ár. Hann ritaði þessar vísur í bókina sem er á Arnarfelli.

Fjallagolan leikur fislétt um vanga
og fyllir lungun um stund.
Á Arnarfell er gaman að ganga,
á góðra vætta fund.

Göngur þessar þarfar tel.
Þeim er vert að sinna.
Heilsubót þeirra þekkt er vel
og þarf ekki að kynna.

Nánari upplýsingar um hvernig komast má að fjöllunum:

Arnarfell við Þingvallarvatn
Arnarfell er grasi gróið fjall við Þingvallavatn. Best er að ganga á fjallið norðaustan vert, þ.e.a.s. upp þá öxl sem snýr að Þingvöllum. Slóðinn að fjallinu liggur af Þingvallavegi nr. 36. Afleggjarinn að fjallinu er um 3,5 km norðan við vegamót Þingvallavegar og Lyngdalsheiðarvegar. Þar er hlið á girðingunni skammt frá upplýsingaskilti Vegagerðarinnar.

Vatnsdalsfjall í Rangárþingi
Vatnsdalsfjall (351m) er grasi gróið fjall í Rangárþingi. Vatnsdalsfjall rís að baki bæjarstæðinu í Vatnsdal. Til að komast að fjallinu er best að fara frá Hvolsvelli inn Fljótshlíðarveg nr. 261. Eftir um 8 km akstur frá Hvolsvelli er beygt inn Vatndalsveg nr. 2655 og ekið framhjá Tumastöðum og Tungu. Þaðan er um 5 km akstur að bænum Vatnsdal. Best er ganga á fjallið frá bæjarhlaðinu.

Fyrri grein„Gamall draumur að rætast“
Næsta grein„Þessir strákar eru tilbúnir að leggja sig fram“