Enn eitt tapið gegn Fjölni

Selfoss heimsótti Fjölni í mikilvægum leik í 1. deild karla í handbolta í kvöld. Lokatölur urðu 28-25 eftir æsispennandi lokakafla.

Leikurinn var jafn framan af en um miðjan fyrri hálfleikinn náði Fjölnir fjögurra marka forskoti, 8-4. Selfyssingar girtu sig þá í brók og jöfnuðu 11-11, en staðan var 14-14 í hálfleik.

Fjölnir hafði frumkvæðið framan af seinni hálfleik en þegar tíu mínútur voru liðnar af hálfleiknum kom góður kafli hjá Selfyssingum sem skoruðu fjögur mörk í röð og breyttu stöðunni úr 18-17 í 18-21.

Heimamenn jöfnuðu 22-22 og eftir það var leikurinn æsispennandi allt til loka. Fjölnismenn voru hins vegar skrefinu á undan síðustu tvær mínútur leiksins og unnu að lokum 28-25.

Þetta var fjórða viðureign Selfoss og Fjölnis í deild og bikar í vetur og hafa Fjölnismenn sigrað í öllum leikjunum.

Stjarnan sigraði ÍH í kvöld og tryggði sér þar með sæti í efstu deild á næsta tímabili. Selfoss og Fjölnir fara hins vegar í umspil ásamt Þrótti og HK en ekki er ljóst hvaða lið mætast þar, fyrr en eftir lokaumferðina næstkomandi föstudag.

Fyrri greinGæsluþyrla nauðlenti í Þykkvabæ
Næsta greinKeramík – leiðsögn með Steinunni