Enn bætir Hlynur vallarmetið

Hlynur Geir Hjartarson, Golfklúbbi Selfoss, sló sitt eigið vallarmet á Svarfhólsvelli í kvöld þegar hann lék 18 holur á 62 höggum eða átta undir pari vallarins í þriðju umferð meistaramóts golfklúbbsins.

“Þetta var mjög góður hringur við frábærar aðstæður á frábærum velli. Ég fékk til dæmis tvö pör á þeirri holu vallarins sem bíður helst uppá fugl svo það er enn möguleiki á bætingu,” sagði Hlynur Geir í samtali við sunnlenska.is að hringnum loknum. Fyrra metið var 64 högg en Hlynur setti það í júní.

Hlynur fékk átta fugla og paraði tíu holur. “Ég sló sjö pútt sem voru styttri en einn og hálfur meter og lengsta púttið var þrír metrar þannig að ég var að slá mjög vel,” sagði Hlynur ennfremur.

Hann hefur forystu í meistaraflokki á mótinu sem lýkur á morgun. Fyrsta hringinn lék hann á 65 höggum, annan á 66 og þriðja á 62 og er því samtals á sautján höggum undir pari eftir 54 holur.