Enginn sigursöngur í Kórnum

Tinna Traustadóttir skoraði þrettán mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss hóf leik í 1. deildinni í handbolta í kvöld þegar liðið heimsótti ungmennalið HK í Kórinn í Kópavogi. HK-U reyndust sterkari og sigruðu 34-30.

Selfyssingar voru betri fyrsta korterið og leiddu 6-8 þegar fimmtán mínútur voru liðnar, en þá tóku HK-U öll völd á vellinum og leiddu í hálfleik 14-12. Selfoss náði ekki að ógna HK-U í seinni hálfleik en slakur varnarleikur Selfyssinga varð liðinu að falli í kvöld.

Tinna Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 13/3 mörk, Lara Zidek skoraði 9/1, Ivana Raikovic 3, Rakel Guðjónsdóttir og Thelma Lind Sigurðardóttir 2 og Elín Krista Sigurðardóttir 1.

Henriette Östergard varði 9 skot í marki Selfoss og var með 23% markvörslu og Lena Ósk Jónsdóttir varði 1 skot og var með 20% markvörslu.