Enginn nammidagur hjá Selfyssingum

Bjarni Jóhannsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð

Selfyssingar gerðu ekki góða ferð norður á Húsavík í dag í 1. deild karla í knattspyrnu. Þar standa yfir Mærudagar þessa helgina og heimamenn í Völsungi léku á als oddi og sigruðu 4-0.

Völsungar komust yfir á 9. mínútu en í framhaldinu var leikurinn í járnum og bæði lið gerðu sig líkleg til að skora. Heimamenn tvöfölduðu forystuna á 33. mínútu og áttu svo sláarskot fimm mínútum síðar en 2-0 forysta þeirra í hálfleik var nokkuð sannfærandi.

Þegar fjórar mínútur voru liðnar af seinni hálfleiknum fékk Alfredo Ivan sitt annað gula spjald fyrir brot í öftustu varnarlínu. Manni færri áttu Selfyssingar sér ekki viðreisnar von og Húsvíkingar tóku leikinn yfir. Það var þó ekki fyrr en á síðustu tíu mínútunum að þeir bættu við tveimur mörkum með tveggja mínútna millibili, til þess að innsigla öruggan sigur sinn.

Selfoss er áfram í 9. sæti deildarinnar með 13 stig og Völsungur er enn í 7. sæti, nú með 17 stig.

Fyrri greinHarður árekstur í Ölfusinu
Næsta greinÞyrlan í sjúkraflug að Fjallabaki