„Enginn krísufundur“

Pétur Már Sigurðsson, þjálfari Laugdæla, fundaði lengi með sínum mönnum inni í klefa eftir 75-85 tap gegn FSu í kvöld.

„Nei, þetta var enginn krísufundur. Það eru ákveðin atriði sem við þurfum að fara í gegnum. Ég er með reynslulítið lið og við erum að vinna í grunnatriðum körfuboltans. Við leggjum mikið upp úr varnarleiknum og reynum svo að vera skynsamir í sókninni og sjáum hvert það fer með okkur,“ sagði Pétur í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Fyrsti og þriðji leikhlutinn voru okkur dýrir. Þeir eru að skora mikið uppúr sóknarfráköstum og þar liggur allur þessi munur í kvöld. Þetta er okkar Akkillesarhæll. Við erum ekki að taka góðar ákvarðanir sóknarlega og hleypum þeim í alltof mörg sóknarfráköst,“ sagði Pétur.

FSu náði 20 stiga forskoti í 3. leikhluta en Laugdælir náðu að minnka muninn niður í 7 stig þegar tæpar fjórar mínútur voru eftir af leiknum. „Það tók mikla orku að koma svona til baka en ég verð að hrósa liðinu fyrir það. Ég spilaði ekki á mörgum mönnum í leiknum þannig að menn voru orðnir þreyttir undir lokin. Það er margt spunnið í þetta lið hjá okkur. Við erum reynslulitlir en verðum reynslumeiri með hverjum leiknum,“ sagði Pétur að lokum.