„Enginn glæsileikur hjá okkur“

Einar Ottó Antonsson átti góðan leik í kvöld fyrir Selfossliðið, sérstaklega í seinni hálfleik.

Einar lét mikið fara fyrir sér þegar leið á leikinn og fiskaði m.a. vítaspyrnuna sem Selfyssingar skoruðu fjórða mark sitt úr.

„Þetta byrjaði ágætlega, við vorum að skapa okkur færi en duttum svo í einhvern leiðindagír þegar við gefum þessi tvö mörk sem voru bæði frekar ódýr. Heilt yfir þá áttum við þennan leik en við getum ekki alltaf treyst á að skora þrjú mörk til þess að fá eitthvað út úr leikjunum,“ sagði Einar Ottó í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Við vorum í þægilegri stöðu í stöðunni 3-1 þar sem þeir voru ekki að skapa mikið. Svo fá þeir mark upp úr þurru rétt fyrir leikhlé þannig að það var mikilvægt fyrir okkur að komast aftur tveimur mörkum yfir strax í upphafi seinni hálfleiks,“ sagði Einar og bætti við að leikurinn hafi verið frekar þægilegur í seinni hálfleik.

„Þetta var samt enginn glæsileikur hjá okkur. Það er mikilvægt að fá þrjú stig á heimavelli og nú hugsum við bara um næsta leik sem er gegn Þrótti úti á föstudaginn. Ef við fáum þrjú stig þar þá lítur þetta allt öðruvísi út og þá erum við komnir í toppbaráttuna þar sem við ætlum okkur að vera. Nú er bara að safna kröftum fyrir þann leik og sækja þrjú stig,“ sagði Einar Ottó að lokum.