Enginn bilbugur á Selfosskonum – Harpa bætist í hópinn

Kvennalið Selfoss er spennt fyrir komandi leiktíð. Ljósmynd/Aðsend

Handboltakonurnar á Selfossi hafa ákveðið að halda tryggð við félagið sitt á komandi tímabili. Eins og greint var frá í febrúar mun Perla Ruth Albertsdóttir snúa aftur heim og á því verður engin breyting þó að Selfoss hafi fallið um deild. Selfyssingar hafa sömuleiðis tryggt sér krafta Hörpu Valeyjar Gylfadóttur, sem kemur til liðsins frá ÍBV.

Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu mikið þær Perla og Harpa munu koma til með að styrkja nú þegar sterkan hóp Selfossliðsins. Perla er að snúa aftur á Selfoss eftir góð ár hjá Fram þar sem hún vann til fjölda titla og festi sig endanlega í sessi sem fastamaður í íslenska landsliðinu. Perla Ruth var valin leikmaður ársins hjá Fram á nýliðinni leiktíð. Hún er einn af leikja- og markahæstu leikmönnum Selfoss frá upphafi með 457 mörk í 137 leikjum.

Harpa gengur hins vegar til liðs við Selfoss frá ÍBV þar sem hún hefur leikið allan sinn feril, en flytur nú upp á fasta landið til að taka slaginn með Selfoss. Harpa hefur verið lykilleikmaður í liði ÍBV undanfarin ár og skoraði 71 mark í 25 leikjum fyrir liðið á síðasta tímabili þar sem ÍBV varð bæði deildar- og bikarmeistari. Þá hefur hún einnig leikið með öllum yngri landsliðum Íslands sem og A-landsliðinu.

Perla og Harpa verða báðar á Selfossi næstu þrjú árin í það minnsta og það er því óhætt að segja að þrátt fyrir svekkelsið í umspilinu séu spennandi tímar framundan á Selfossi.

„Það er okkur mikið gleðiefni að þær stelpur sem höfðu tækifæri til að leika í efstu deild á næsta tímabili ætli að halda tryggð við klúbbinn og þessi viðbót mun bara styrkja okkar þegar sterka hóp,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari liðsins.

Með stórt Selfosshjarta
Perla Ruth er spennt fyrir komandi tímum og segir liðið ætla beina leið aftur upp í Olísdeildina.

„Ég er með stórt Selfoss hjarta og er ég því spennt að taka slaginn með uppeldisfélaginu í þessu mikilvæga verkefni sem er framundan,“ segir Perla Ruth. „Selfoss er með mikinn metnað, frábæra umgjörð, efnilegan leikmannahóp og gríðarlega spennandi þjálfarateymi. Við ætlum okkur beina leið aftur upp í Olísdeildina og stefnum á að festa liðið í sessi sem eitt af betri liðum landsins á skömmum tíma. Það er margt spennandi og skemmtilegt framundan í klúbbnum og er ég virkilega spennt að spila aftur fyrir framan frábæru stuðningsmennina á Selfossi,“ sagði Perla ennfremur.

Harpa Valey Gylfadóttir. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinBerglind kosin í stjórn Félags húsgagnabólstrara
Næsta greinMörkunum rigndi í seinni hálfleik