Engin vandræði hjá Selfyssingum

Mina Mandić varði 12 skot í marki Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann sannfærandi sigur á Gróttu í Grill-66 deild kvenna í handbolta á Selfossi í kvöld, 30-24.

Grótta skoraði fyrsta mark leiksins en Selfoss svaraði með þremur mörkum í röð og hafði frumkvæðið eftir það. Um miðjan fyrri hálfleikinn var munurinn orðinn fimm mörk, 11-6, en staðan var 16-12 í hálfleik.

Selfoss byrjaði af krafti í seinni hálfleik og náði átta marka forskoti, 21-13. Grótta gafst ekki upp og minnkaði muninn í fjögur mörk á stuttum tíma en þá var Selfyssingum nóg boðið, þær tóku völdin aftur og Grótta minnkaði muninn ekki frekar.

Tinna Sigurrós Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 11/3 mörk, Roberta Strope skoraði 5, Tinna Soffía Traustadóttir og Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir 4, Kristín Una Hólmarsdóttir og Elín Krista Sigurðardóttir 2 og Rakel Hlynsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu 1 mark hvor.

Mina Mandic varði 12 skot í marki Selfoss og átti heilt yfir góðan leik.

Selfyssingar eru því aftur komnir í toppsæti deildarinnar, með 23 stig en ÍR er í 2. sæti með 21 stig og á leik til góða. Næsti leikur Selfyssinga er einmitt toppslagur gegn ÍR á útivelli á miðvikudaginn í næstu viku.

Fyrri greinViðbragðsáætlun Selfossveitna virkjuð
Næsta greinHamar vann stigakeppnina