Engin uppskera hjá Rangæingum

Knattspyrnufélag Rangæinga tapaði fimmta leiknum í röð í 2. deild karla í kvöld þegar liðið tók á móti Njarðvík. Lokatölur á Hvolsvelli voru 0-3.

Njarðvíkingar voru sterkari í fyrri hálfleik og komust yfir á 14. mínútu. Eftir sókn upp hægri kantinn barst boltinn fyrir markið og yfir Maciej Majewski í markinu en sóknarmaður Njarðvíkur var frír á fjærstöng og skallaði í netið. Eftir markið var fátt um færi, Njarðvíkingar voru meira með boltann án þess þó að fá opin færi en besta færi KFR fékk Lárus Viðar Stefánsson þegar hann skallaði yfir eftir hornspyrnu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Rangæingar mættu mun sprækari til síðari hálfleiks og sköpuðu hættu upp við mark Njarðvíkur eftir hornspyrnu strax á 50. mínútu. KFR var meira með boltann í seinni hálfleik en Njarðvíkingar beittu skyndisóknum og á 60. mínútu varði Majewski vel í marki KFR eftir að sóknarmaður Njarðvíkinga slapp einn innfyrir.

Fjórum mínútum síðar skall hurð nærri hælum upp við mark KFR þegar Majewski missti af boltanum í markteignum en Lárus Viðar kom til bjargar á síðustu stundu og renndi sér í boltann.

Næstu mínútur voru líflegar en á 67. mínútu komst Hjörvar Sigurðsson í dauðafæri eftir góða sókn KFR þar sem hann lúrði á fjærstöng en náði ekki krafti í skotið sem fór beint á markvörð Njarðvíkur. Mínútu síðar voru gestirnir komnir í 0-2 þegar Rangæingar dekkuðu illa í hornspyrnu.

Á 69. mínútu var Hjörvar aftur nálægt því að skora eftir fína sendingu Helga Ármannssonar inn á teiginn en markvörður Njarðvíkur tók boltann af tánum á Hjörvari.

Rangæingar héldu áfram að stjórna leiknum en Njarðvíkingar beittu refsivendinum við hver mistök heimamanna og á 75. mínútu kom þriðja mark Njarðvíkur úr skyndisókn og þar með gerðu þeir endanlega út um leikinn.

Eftir þriðja markið fjaraði leikurinn út en bæði lið fengu færi á lokamínútunum. Majewski átti fína markvörslu á 89. mínútu en frákastið barst fyrir fætur Njarðvíkings sem skaut yfir úr opnu færi. Í uppbótartíma lauk Helgi Ármannsson skyndisókn KFR með skoti framhjá markinu úr góðri stöðu. Nokkrum mínútum fyrr heimtuðu Rangæingar vítaspyrnu þegar brotið var á Mariusz Baranolski og höfðu þeir nokkuð til síns máls en dómarinn taldi brotið hafa átt sér stað utan vítateigsins.

Rangæingar gengu svekktir af velli en þeir uppskáru ekkert þrátt fyrir fína baráttu. Eftir fimm umferðir eru þeir stigalausir á botni deildarinnar.

Fyrri greinTvö brunaútköll í kvöld
Næsta greinSóttu örmagna göngukonu