Engin uppskera gegn Val

Selfyssingar töpuðu 0-1 þegar þeir fengu Valsmenn í heimsókn í Pepsi-deild karla í knattspyrnu í kvöld. Eina mark leiksins skoruðu Valsmenn á 60. mínútu.

Töluverðar breytingar voru á leikmannahópi Selfyssinga fyrir leikinn en Abdoulaye Ndiaye er farinn í Hamar og Joe Tillen líklega á leið til Vals en að auki var Robert Sandnes í leikbanni. Inn í hópinn komu nýliðarnir Egill Jónsson, Markus Hermo og Hafþór Þrastarson en þeir tveir síðastnefndu komu beint inn í byrjunarliðið.

Valsmenn voru sprækari fyrsta korterið og sóttu mikið á nýliðann Hermo sem leit ekki vel út á upphafsmínútum leiksins.

Eftir fimmtán mínútna leik hresstust Selfyssingar nokkuð og leikurinn var í járnum fram að leikhléi. Bæði lið fengu ágæt færi en enginn þó betra en Tómas Leifsson sem skaut himinhátt yfir af fjögurra metra færi eftir góðan undirbúning Viðars Kjartanssonar.

Upphafsmínútur síðari hálfleiks voru gríðarlega fjörugar þar sem sótt var á báða bóga. Ljóst var að eitthvað varð undan að láta og að þessu sinni var það Selfossvörnin en á 60. mínútu skoraði Matthías Guðmundsson gott skallamark þar sem hann var óvaldaður í teignum eftir fyrirgjöf frá vinstri.

Eftir markið var fátt tíðinda en Logi Ólafsson, þjálfari, reyndi að hressa upp á sóknarleikinn með því að setja Moustapha Cissé inná í stað Jon Andre Röyrane og fylgdist Cissé með leiknum innan vallar síðustu tuttugu mínúturnar.

Leikurinn fjaraði smátt og smátt út og þrátt fyrir góða baráttu hjá Selfyssingum, sérstaklega í fyrri hálfleik, var uppskeran engin að þessu sinni.

Fyrri greinAndri Már níundi í höggleiknum
Næsta greinVel heppnuð afmælishátíð