Engin uppgjöf hjá Uppsveitamönnum

Máni Snær var efnilegastur hjá Uppsveitum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Uppsveitamenn voru í góðum gír í kvöld þegar Skallagrímur kom í heimsókn á Flúðir í 4. deild karla í knattspyrnu.

Uppsveitir byrjuðu betur í leiknum og leituðu stíft að fyrsta markinu en Borgnesingar voru hins vegar fyrri til að skora, á 29. mínútu. Þrátt fyrir þessa blautu tusku í andlitið gáfust heimamenn ekki upp og Óliver Jóhannsson skoraði glæsilegt skallamark á 45. mínútu eftir sendingu frá Kristni Sölva Sigurgeirssyni. Aðeins mínútu síðar kom Máni Snær Benediktsson Uppsveitum svo yfir með laglegu marki eftir fyrirgjöf Gústafs Sæland.

Staðan var 2-1 í hálfleik en seinni hálfleikurinn var í járnum lengst af. Uppsveitamenn gulltryggðu sigurinn svo á 74. mínútu með góðu marki Mána Snæs eftir sendingu frá Kristni Sölva.

Stórleikur á laugardag
Uppsveitir eru í 5. sæti B-riðilsins með 15 stig og Skallagrímur með jafn mörg stig í 4. sætinu. Uppsveitir mæta Stokkseyri í lokaumferðinni á laugardaginn en Stokkseyringar töpuðu 1-0 á útivelli gegn Skautafélagi Reykjavíkur í kvöld. Liðið sem vinnur leikinn á laugardaginn mun væntanlega enda í 4. sæti riðilsins og á montréttinn gegn nágrönnum sínum alveg fram á næsta sumar.

Árborg í úrslitakeppnina
Knattspyrnufélag Árborgar tryggði sér svo sæti í úrslitakeppni 4. deildarinnar í kvöld með því að sitja heima í sófa. Kría og RB áttust við í toppslag í lokaumferðinni í A-riðlinum. Leiknum lauk með 1-1 jafntefli og RB getur því ekki náð Árborg að stigum. Kría og Árborg fara því í úrslitakeppnina úr A-riðlinum.

Fyrri greinFyrirliðinn gaf tóninn
Næsta greinFramarar komnir með tvo sigra