Engin mistök í endurteknum leik

Inga Sól og Elínborg Katla skoruðu báðar 6 mörk í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss jafnaði ÍR að stigum í toppsæti Grill-66 deildar kvenna í handbolta í kvöld með því að valta yfir ungmennalið Stjörnunnar á útivelli, 25-37.

Leikurinn var endurtekinn leikur frá því fyrr í vetur en dómstóll HSÍ úrskurðaði að leikurinn skyldi leikinn aftur vegna mistaka á ritaraborði. Þá fóru leikar ýmist 29-29, eða 30-29 Stjörnunni-U í vil, eftir því hvenær dags úrslitin voru lesin.

Selfyssingar voru ekkert að tvínóna við hlutina í kvöld, þær mættu ákveðnar til leiks og náðu strax fimm marka forystu. Fyrri hálfleikur var nánast fullkominn hjá Selfossliðinu sem náði tíu marka forskoti, 9-19 og í hálfleik var munurinn orðinn ellefu mörk, 13-24.

Selfoss jók muninn í tólf mörk í upphafi seinni hálfleiks en lengst af var munurinn um og yfir tíu mörk, þangað til rétt í lokin að Selfoss steig á gjöfina og vann að lokum tólf marka sigur.

Allir fjórtán útileikmenn Selfoss komust á blað í leiknum. Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir var markahæst með 7 mörk, Emilía Ýr Kjartansdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu báðar 5 mörk, Tinna Sigurrós Traustadóttir, Elín Krista Sigurðardóttir og Roberta Stropus skoruðu allar 3 mörk, Inga Sól Björnsdóttir, Hafdís Alda Hafdal og Kristín Una Hólmarsdóttir 2 og þær Lena Ósk Jónsdóttir, Rakel Hlynsdóttir, Tinna Soffía Traustadóttir, Agnes Sigurðardóttir og Þrúður Sóley Guðnadóttir skoruðu allar 1 mark.

Mina Mandic varði 8 skot í marki Selfoss og var með 44% markvörslu og Dröfn Sveinsdóttir varði sömuleiðis 8 skot og var með 35% markvörslu.

Fyrri grein618 í einangrun á Suðurlandi
Næsta greinML mætir til leiks í kvöld