Engin gestrisni í Laugardalnum

Björn Sigurbjörnsson, þjálfari Selfoss. Ljósmynd: fotbolti.net/Hafliði Breiðfjörð

Selfoss heimsótti Þrótt Reykjavík í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í Laugardalinn í kvöld. Lokatölur urðu 3-0, Þrótti í vil en heimakonur voru mun sterkari aðilinn í leiknum.

Þróttur sótti stíft í fyrri hálfleik en uppskar ekki mark fyrr en á 32. mínútu þegar Katie Cousins skallaði boltann í netið af stuttu færi. Í uppbótartíma fyrri hálfleiks tvöfaldaði Freyja Þorvarðardóttir forystu Þróttar en skömmu áður áttu Selfyssingar að fá vítaspyrnu þegar varnarmaður Þróttar varði boltann með hendinni innan vítateigs.

Selfyssingar voru sprækari í seinni hálfleik en tókst ekki að skora þrátt fyrir þunga sókn á köflum. Katla Tryggvadóttir bætti hins vegar við þriðja marki Þróttar í uppbótartímanum úr skyndisókn eftir að Selfyssingar höfðu fjölmennt í sóknina.

Selfoss er áfram með 7 stig á botni deildarinnar en Þróttur fór upp í 3. sætið með sigrinum og hefur 18 stig.

Fyrri greinVeðrið lék við hjólreiðamenn í Flóanum
Næsta greinMotocrossfólk í loftköstum á nýrri braut við Hellu