Engilbert sæmdur gullmerki UMFÍ

Engilbert Olgeirsson, framkvæmdastjóri HSK, var í morgun sæmdur gullmerki Ungmennafélags Íslands, á 92. héraðsþingi HSK sem haldið er í félagsheimilinu Borg í Grímsnesi í dag.

Engilbert hefur verið framkvæmdastjóri HSK undanfarin 23 ár en hann hefur í gegnum tíðina setið í ýmsum nefndum á vegum UMFÍ, verið stjórnarmaður í ÍSÍ auk þess sem hann var á sínum tíma formaður Ungmennafélagsins Ingólfs í Holtum.

Helga Guðrún Guðjónsdóttir, formaður UMFÍ, sæmdi einnig þrjá aðila starfsmerki UMFÍ. Það voru þau Guðmundur Jónasson, formaður Umf. Heklu, Jóhannes Óli Kjartansson, handknattleiksdeild Umf. Selfoss og Bjarnheiður Ástgeirsdóttir, taekwondodeild Umf. Selfoss.

Gunnar Bragason, gjaldkeri ÍSÍ, sæmdi Benóný Jónsson, fyrrverandi formann Íþróttafélagsins Dímonar, silfurmerki ÍSÍ en Benóný er varaformaður Frjálsíþróttasambands Íslands og fyrrverandi formaður frjálsíþróttaráðs HSK.

Þá sæmdi Guðríður Aadnegard, formaður HSK, þrjá aðila heiðursmerki sambandsins. Þórir Haraldsson, formaður framkvæmdanefndar landsmóta á Selfossi, var sæmdur gullmerki HSK og þau Þorbjörg Vilhjálmsdóttir, Íþf. Suðra og Helgi Kjartansson, Umf. Biskupstungna fengu silfurmerki.

Á héraðsþinginu eru veitt ýmis sérverðlaun. Ungmennafélag Selfoss sigraði í stigakeppni HSK á síðasta ári og Ungmennafélagið Hekla fékk unglingabikar HSK 2013. Þá var frjálsíþróttadeild Ungmennafélagsins Þórs verðlaunuð með foreldrastarfsbikarnum og Kristín Stefánsdóttir, Umf. Vöku, er öðlingur ársins.

Síðar í dag verður Íþróttamaður HSK 2013 verðlaunaður.