„Engan veginn nógu gott“

Hergeir Grímsson er farinn í Stjörnuna. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir góðan sigur á FH í 1. umferð Olísdeildar karla í handbolta var Selfyssingum kippt niður á jörðina á heimavelli í kvöld þegar ÍR kom í heimsókn.

Gestirnir úr Breiðholtinu unnu sannfærandi sigur, 28-35, þar sem þeir völtuðu yfir Selfyssinga í seinni hálfleik.

„Þetta var eng­an veg­inn nógu gott. Við fáum á okk­ur 35 mörk og þú vinn­ur ekki hand­bolta­leik með svo­leiðis frammistöðu. Við töp­uðum mikið maður á mann, sér­stak­lega í seinni hálfleik, sem er ólíkt okk­ur. Ég kann ekki skýr­ing­ar á því núna en við skoðum þetta með gagn­rýn­um aug­um og finn­um hvað það er sem þarf að laga,“ sagði Grím­ur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

ÍR-ingar sterkari í seinni hálfleik
Selfoss hafði frumkvæðið fyrsta korterið en í stöðunni 8-6 skoruðu ÍR-ingar þrjú mörk í röð og komust yfir. Selfoss jafnaði 9-9 en ÍR var sterkara liðið á lokakafla fyrri hálfleiks og leiddi 13-15 í leikhléi.

Gestirnir náðu að auka muninn í fjögur mörk í upphafi seinni hálfleiks og Selfoss kom ekki til baka eftir það. Staðan var 20-25 þegar fimmtán mínútur voru eftir og allar tilraunir Selfoss til að komast inn í leikinn mistókust. Varnarleikur þeirra vínrauðu var ekki góður og markvarslan lítil, þannig að ÍR átti alltaf svar ef Selfoss nálgaðist þá.

Haukur markahæstur
Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk og 6 stoðsendingar. Hergeir Grímsson skoraði 6/3 í seinni hálfleik og Magnús Øder Einarsson 5 í fyrri hálfleik. Tryggvi Þórisson nýtti sín skot vel, skoraði 3 mörk og var sterkur í vörninni. Atli Ævar Ingólfsson, Árni Steinn Steinþórsson og Alexander Már Egan skoruðu allir 2 mörk og Árni Steinn fór fremstur Selfyssinga í varnarleiknum með 11 lögleg stopp. Guðni Ingvarsson spilaði lítið en skoraði 1 mark og var með 100% skotnýtingu.

Einar Baldvin Baldvinsson var mjög góður í fyrri hálfleik þar sem hann varði 10 skot, en aðeins 3 bættust við í seinni hálfleiknum. Einar var með 32% markvörslu. Sölvi Ólafsson varði 3 skot í seinni hálfleik og var með 30% markvörslu.

Fyrri greinPilturinn fundinn heill á húfi
Næsta grein„Jón hefur haft ómetanleg áhrif á hundruð barna“