Endurkoma í 4. leikhluta dugði ekki til

Lárus Jónsson, þjálfari Þórs. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn heimsótti Tindastól á Sauðárkrók í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Eftir slæma byrjun unnu Þórsarar sig vel inn í leikinn og töpuðu naumlega, 88-86.

Þórsarar voru ekki með í upphafi leiks og Tindastóll komst í 23-7. Staðan var 30-12 eftir 1. leikhluta en Þórsarar héldu sjó í 2. leikhluta, án þess þó að ná að minnka muninn og staðan í hálfleik var 53-35.

Í seinni hálfleiknum fóru hlutirnir að líta betur út hjá Þorlákshafnarliðinu og þeir minnkuðu muninn í 61-51 áður en Tindastóll steig á gjöfina aftur og munurinn var orðinn 20 stig undir lok 3. leikhluta.

Fjórði leikhluti var svakalegur, Þórsarar minnkuðu muninn hratt og þegar 55 sekúndur voru eftir skoraði Vincent Shahid úr víti og breytti stöðunni í 84-83. Tindastóll skoraði 3 stig í næstu sókn og Shahid setti niður þrist þegar 8 sekúndur voru á klukkunni en Tindastóll kláraði leikinn á vítalínunni og tryggði sér 88-86 sigur.

Vincent Shahid var bestur í liði Þórsara, skoraði 33 stig og tók 6 fráköst, auk þess að senda 3 stoðsendingar. Styrmir Snær Þrastarson skoraði 16 stig og Daníel Ágúst Halldórsson 9.

Útlitið versnar hjá Þórsurum með hverri umferðinni sem líður. Eftir níu umferðir eru Þórsarar á botninum með einn sigur, sem gefur 2 stig.

Fyrri greinSundhöllinni lokað vegna heitavatnsskorts
Næsta greinHamar lyfti sér upp í 2. sætið