Endaspretturinn var Þórsara

Þór tók á móti Snæfelli í kvöld í fyrstu viðureign liðanna í 8-liða úrslitum Iceland Express deildar karla í körfubolta. Eftir magnaðan lokakafla höfðu Þórsarar 82-77 sigur.

Leikurinn fór rólega af stað og jafnræði var með liðunum fyrstu þrjár mínúturnar en þá tók Snæfell öll tök á leiknum og keyrðu yfir heimamenn. Snæfell hitti nánast úr öllum skotum sem þeir tóku og virtust ætla að valta yfir Þórsara. Staðan eftir fyrsta leikhluta var 14-25 gestunum í vil.

Snæfellingar héldu áfram áfram að keyra yfir heimamenn í byrjun 2. leikhluta og komust 16 stigum yfir. Þá vöknuðu heimamenn og bættu aðeins vörnina hjá sér. Þór minnkaði muninn hægt og rólega fram að hálfleik. Staðan í hálfleik var 32-40 Snæfell í vil. Snæfell voru miklu betri stóran part af fyrri hálfleik en Þórsarar virtust hálf stressaðir og voru ekki að setja niður skotin sín. Varnarleikurinn hjá heimamönnum var langt frá því góður.

Þórsarar komu sterkir inn í seinni hálfleikinn og náðu að minnka muninn í fimm stig strax í byrjun þriðja leikhluta. Darrin Govens var mjög sterkur á þessum kafla. Snæfellingarnir náðu þá að snúa leiknum sér í vil og juku forskotið jafnt og þétt. Snæfell náði mest 16 stiga forskoti þegar að ein og hálf mínúta var eftir af 3. leikhluta. Þórsarar löguðu aðeins stöðuna undir lokin. Staðan eftir 3. leikhluta var 53-65 Sneæfell í vil.

Liðin skiptust á að skora í byrjun lokaleikhlutans. Þegar um sjö mínútur voru eftir skelltu heimamenn í lás í vörninni og fóru að éta upp forskot gestana.

Guðmundur Jónsson skellti niður stórum þristi og minnkaði muninn í 5 stig. Blagoj Janev setti svo niður tvo stig og jafnaði leikinn 72-72 þegar þrjár mínútur voru eftir af leiknum og allt var að verða vitlaust í stúkunni.

Í stöðunni 76-75 kom risa þristur frá Baldri Þór Ragnarssyni og staðan var 79-75 Þór í vil. Eftir það röðuðu leikmenn sér á vítalínuna og Guðmundur og Govens kláruðu sín víti fyrir Þórsara til að tryggja sigurinn.

Þórsarar fara því með 1-0 forystu í einvíginu í Stykkishólm í leik númer tvö sem er á mánudaginn.

Atkvæðamestir heimamanna voru Darren Govens með 23 stig, 6 fráköst og 7 stoðsendingar. Matthew Hairston skoraði 19 stig og tók 12 fráköst. Blagoj Janev skoraði 12 stig og Grétar Ingi Erlendsson 11.

Umfjöllun karfan.is

Fyrri greinSelfyssingar í úrslitakeppnina – Skelltu Víkingum
Næsta greinEva Dögg Ungfrú Suðurland 2012