Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson verður ekki meira með íslenska landsliðinu í handbolta á Evrópumótinu í ár eftir að hafa handarbrotnað í leiknum gegn Ungverjum í gærkvöldi.
Elvar Örn, sem er lykilmaður í íslenska liðinu, mun fara í aðgerð á morgun heima á Íslandi og verður frá keppni um óákveðinn tíma.
„Líkamlega og andlega heilsan er ekki góð. Þetta eru búnir að vera erfiðir klukkutímar og maður er enn að reyna átta sig á því að þetta sé búið,“ sagði Elvar í samtali við mbl.is í hádeginu í dag.
Íslenska liðið flytur sig nú til Malmö þar sem keppni í milliriðli hefst næstkomandi föstudag með leik gegn Króatíu eða Svíþjóð.

