Elvar Örn og Perla Ruth íþróttafólk ársins hjá Umf. Selfoss

Íþróttafólk deilda ásamt íþróttakarli og íþróttakonu ársins hjá Umf. Selfoss. Í aftari röð f.v. eru Logi Freyr Gissurarson sem tók við viðurkenningu f.h. Magdalenu Önnu, Birta Sif, Viktor S. Pálsson formaður Umf. Selfoss, Sara, Hilmar Örn Hilmarsson sem tók við viðurkenningu f.h. Guðmundar Axels, Egill, Bjarni Már og Þorsteinn Ragnar sem einnig tók við verðlaunum f.h. Dagnýjar Maríu. Fyrir framan eru Elvar Örn og Perla Ruth. Ljósmynd/UMFS

Handknattleiksfólkið Elvar Örn Jónsson og Perla Ruth Albertsdóttir voru valin íþróttakarl og íþróttakona ársins 2018 hjá Ungmennafélagi Selfoss og er þetta annað árið í röð sem þau hljóta þennan heiður.

Verðlaunahátíð Ungmennafélags Selfoss var haldin í kvöld í félagsheimilinu Tíbrá en þetta er jafnframt annað árið sem félagið heldur sérstaka verðlaunahátíð fyrir íþróttafólk ársins.

Perla Ruth er lykilleikmaður í liði Selfoss sem leikur í Olís-deildinni. Náði liðið sínum besta árangri keppnistímabilið 2017-2018 þegar það endaði í sjötta sæti. Hún tók þátt í öllum landsliðsverkefnum ársins og stimplaði sig inn sem lykilleikmaður í landsliðinu.
 
Elvar Örn er lykilleikmaður í liði Selfoss í Olís-deildinni en liðið náði sínum besta árangri í deildarkeppni á árinu, lék til undanúrslita á Íslandsmóti og bikarkeppni auk þess að taka þátt í Evrópukeppni. Á liðnu ári stimplaði Elvar Örn sig inn sem byrjunarliðsmaður hjá íslenska landsliðinu ásamt því að vera valinn besti leikmaður Olís-deildarinnar á síðustu leiktíð.
 
Á verðlaunahátíðinni var íþróttafólk ársins í deildum félagsins einnig heiðrað, en hver deild Umf. Selfoss gat tilnefnt íþróttakarl og íþróttakonu í sinni deild.
 
Það voru fimleikafólkið Bjarni Stefánsson og Birta Sif Sævarsdóttir, frjálsíþróttafólkið Kristinn Þór Kristinsson og Eva María Baldursdóttir, handknattleiksfólkið Elvar Örn og Perla Ruth, júdómaðurinn Egill Blöndal, knattspyrnufólkið Guðmundur Axel Hilmarsson og Magdalena Anna Reimus, motocrosskonan Gyða Dögg Heiðarsdóttir, sundkonan Sara Ægisdóttir og taekwondofólkið Þorsteinn Ragnar Guðnason og Dagný María Pétursdóttir.
Fyrri greinSelfoss tapaði fyrir norðan
Næsta greinHamar elti allan tímann