Elvar og Teitur markahæstir – Ísland fer taplaust á HM

Íslenska U21 árs landsliðið í hand­bolta karla sigraði Serbíu 34-32 í lokaumferð undankeppni HM í Serbíu í dag. Liðið hafði tryggt sér farseðilinn á HM fyrir leikinn.

Ísland sigraði í öllum leikjum sínum í undankeppninni um helgina, 31-24 gegn Grikklandi og 32-25 gegn Litháen. Vegna hagstæðra úrslita í öðrum leikjum hafði Ísland þegar tryggt sér þáttökurétt á HM fyrir leikinn gegn Serbíu í dag. Heimsmeistaramótið fer fram í Alsír í júlí næstkomandi.

Selfyssingarnir í liði Íslands voru í aðalhlutverki í leiknum gegn Serbíu. Elvar Örn Jónsson var markahæstur með 9 mörk og Teitur Örn Einarsson skoraði 5 mörk. Hergeir Grímsson komst einnig á blað í dag og skoraði 1 mark.