Elvar magnaður í stórsigri Íslands

Elvar Örn Jónsson. Ljósmynd/HSÍ

Selfyssingurinn Elvar Örn Jónsson átti frábæran leik þegar Ísland vann stórsigur á Ísrael í fyrsta leik liðsins í undankeppni HM karla í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði í kvöld.

Ísland vann leikinn 36-21 en staðan var 16-10 í hálfleik.

Elvar fékk það hlutverk að fylla skarðs Arons Pálmarssonar í sóknarleiknum og Selfyssingurinn stóð svo sannarlega fyrir sínu. Raunar var Elvar firnasterkur á báðum endum vallarins, skoraði 5 mörk úr 5 skotum, átti 4 stöðvanir í vörninni, tvo stolna bolta og eitt blokkerað skot.

Allir Selfyssingarnir í liði Íslands komust á blað í kvöld. Bjarki Már Elísson skoraði 3 mörk og Janus Daði Smárason og Teitur Örn Einarsson gerðu sitt markið hvor. Þá átti tengdasonur Hvolsvallar, Ágúst Elí Björgvinsson, frábæra innkomu í markið og varði 5/1 skot á lokakaflanum.

Fyrri greinHamar hóf titilvörnina á sigri
Næsta greinNýja brúin yfir Varmá opnuð fyrir umferð